Angkor What!

Halló heimur.

Seinast bloggaði ég á laugardaginn. Núna er fimmtudagur, og yfirför vikunnar frá seinniparti seinasta föstudags er á dagskrá í þetta skipti. Þvílík og önnur eins dagskrá!

image

Fundum staðinn sem er á forsíðunni á Lonely Planet í Angkor Wat! Þessi bók er búin að halda í höndina á okkur í gegnum svo margt.

Á föstudaginn, eftir Elephant Valley Project, fórum við Arnheiður út að borða með fólki sem við hittum í EVP. Samtals þrettán manns.  Það var hópur af átta fólki sem var í tíu vikna sjálfboðaliða prógrammi, þar af tvær í EVP, leiðsögumaðurinn þeirra og eitt breskt par. Minnst var lauslega á þetta fólk í seinasta bloggi.  Við fórum á besta pizzastaðinn í bænum, og átum flatbökur og drukkum bjór fram á kvöld. Það var mjög gaman, þetta er tiltölulega skemmtilegt fólk.

image

Bjórturn. Angkor bjórinn er að fara vel með okkur!

Daginn eftir var leiðsögumaður (kona að nafni Melissa) hópsins búinn að skipuleggja dagstúr og bjóða okkur með. Við heimsóttum flotta fossa, stöðuvatn til að synda í og kaffiekru/veitingastað, og mikið var sungið í bílnum.

image

Hópurinn að skoða fossinn.

image

Við og fossinn!

Fossinn var mjög fallegur, og það var fullt af innfæddum þar í pikknikk og að djúsa smá. Einn hópurinn bauð okkur Arnheiði bjór og svona, en við vorum of upptekin af fossunum til að skála. Ég fór á bakvið fossinn og náði nokkrum töffaralegum myndum! 🙂

image

Töffaraleg bak-fossamynd

image

AS að taka mynd af TAG að taka mynd fyrir aftan foss.

Við syntum samt ekki í vatninu, en kaffið og maturinn á kaffiekrunni var mjög fínt, og krakkarnir voru fyndnir og skemmtilegir á leiðinni á milli áfangastaða. Ískaffi með sætri, þykkri mjólk virðist alltaf vera a.m.k. ágætt.

image

Á kaffi ekrunni var mjög fallegt en líka svakalega heitt.

Þetta var rosalegt stuð, og lengdi dvöl okkar í San Monorom um einn dag, og frestaði þ.a.l. rútuferðinni til Siem Reap um einn dag. Við þurftum samt að koma við í Phnom Penh í eina nótt á leiðinni til baka, en pössuðum okkur að velja hótel með góðri loftkælingu og lök sem maður þorir að sofa á. Það gekk eftir, og við vorum mjög þreytt eftir strembna sjálfboðavinnu í hitanum og útsýnisferð á laugardeginum, svo við tókum því rólega í köldu herbergi þriðja skiptið okkar í Phnom Penh.

image

Hliðargata í Siem Reap

image

Horfðum á þjóðlega dansa í Siem Reap til þess að komast í Angkor gírinn

Á mánudeginum tókum við síðan lúxus rútu til Siem Reap. Þegar við komum var klukkan orðin sjö, og við fengum okkur kvöldmat að borða og plönuðum næstu daga. Sem leiddi til þess að þriðjudagur varð MARKAÐSDAGUR! Við fórum á gamla markaðinn í Siem Reap, og svo skoðuðum við búðir og fórum á geðveikt frábært bollakökukaffihús og fengum unaðslegar bollakökur og drykki. Þetta kaffihús er non-profit, og veitir mörgum kambódískum konum vel launaða vinnu(á kambódískum mælikvarða) og rými til að skapa frumlegar kökur og listilegt skraut.

image

Nokkur tár féllu af aðdáun

Miðvikudagur lofaði góðu því hann byrjaði á því að við færðum okkur á hótel með sundlaug! Síðan heimsóttum við silki verksmiðju nálægt Siem Reap. Þar fengum við að sjá framleiðslu silki vefnaðar allt frá ræktun berjarunnana sem silkiormarnir nærast á, til vefnaðar silkisins.

image

Mulberry (mig vantar Ísl orð?!) lauf er aðal fæða silki ormana. Edit: orðið er mórber.

Merkilegast fannst mér að sjá hvernig silkið er spunnið í þræði. Það er einungis hægt að nota púpurnar ef ormarnir eru drepnir inni í púpunni, vegna þess að fiðrildin naga sig út úr púpunni, og slíta þá silki þráðinn sem hver púpa er gerð úr. Hver púpa er einn þráður, sem er um 400 metra langur, og fyrst eru fyrstu 100-200 metrarnir spunnir sem grófara hrásilki, og svo þráðurinn slitinn einu sinni, og öll restin notuð til að spinna fínna silki. Hver örfínn spunnin þráður af silki er samsettur úr nokkrum púpum, nokkrum þráðum. Mér fannst þetta merkilegt ferli, og mjög gaman að sjá hvert einasta skref í ferlinu!

image

Sjóða púpurnar og skilja þræðina að. Merkilegt!

image

Gróft silki.

Svo áttum við góða rest af degi í sundlauginni og fengum okkur djúsí pizzu í kvöldmat. Snemma í háttinn þar sem TukTuk bílstjórinn Teavy lofaði að sækja okkur kl. 05:00 morguninn eftir til að skoða Angkor Wat í dögun.

image

Hofið fræga var rosalega fallegt í sólarupprásinni.

image

Svooo fallegt!!

image

Angkor pós!

Það var mjög skemmtilegt að skoða þessi gríðarstóru og ótrúlega fallegu hof, og gott að mæta snemma þegar birtuskilyrði eru óviðjafnanleg og hitinn ekki eins kæfandi og yfir miðjan daginn. Saga þessa staðar, og valdi Khmeranna hér á öldum áður er vægast sagt merkileg og mikilfengleg. Bókmenntir og Wikipedia greinar um Khmeraveldið og Angkor hofin öll eru vægast sagt áhugaverðar lesningar sem hægt er að mæla með. Hiklaust.

image

Horfa yfir Baphuon Temple sem hefur oft verið kallað stærsta púsluspil heims.

Við tókum okkur góða átta klukkutíma í að skoða hin ýmsu hóf Angkors, en Angkor Wat var án vafa hápunkturinn, og Ta Prohm, sem er reyndar hálfgerðar rústir, í öðru sæti, sem voru akkúrat upphaf og endir þessa átta tíma göngutúrs, sem ég held að við munum aldrei gleyma.

image

Sögu veggir út um allt með alls konar myndum úr stríði og trú. Áhrifaríkt og upplýsandi! Þessi mynd er tekin í Angkor Wat.

image

Krúttlegur túristi að pósa í Bayon hofinu!

image

Bayon hofið prýðir 216 brosandi andlit konungsins sem var við völd þegar bygging hofsins átti sér stað. Skemmtilega óhugnalegt.

image

Merkilegt að sjá hvernig náttúran hefur brotist í gegnum hofið Ta Prohm sem í dag er rúst að mestu leyti. Svona risa stór tré eru útum allt hofið, inní því og utan á.

image

Tómas að fela sig í risa stóru tré!

Við vorum þreytt eftir langan morgun, og fengum okkur smá lúr og góða sundlaugarkælingu þegar við komum aftur heim á hótel. Svo ákváðum við að fá okkur rosa fínt að borða í kvöld, og splæstum í þrírétta með góðu víni á flottum frönskum veitingastað hér í bæ. Það var góður endir á frábærum degi, og fínustu viku. Myndafarg vikunnar vegur þungt, sem er jákvætt, og ætla ég því að veita Arnheiði frjálsar hendur með að myndskreyta þessa færslu.

image

AS myndskreytari kveður að sinni með þessari fallegu brotnu fílastyttu sem er staðsett í Baphuon Temple.

Takk fyrir lesturinn, næst verður líklega meira af Siem Reap stuði(t.d. pub street) og kannski smá Víetnam líka!
Tómas pizzabakAri skrifar frá Kambódíu!

image

Bless í bili!

Ein athugasemd við “Angkor What!

  1. Eva sagði:

    Gaman að lesa þessar færslur ykkar. Væri til í að fá eitthvað af þessu góða veðri heim til Íslands, þar sem vetrarstormar af stærri gerðinni geysa dag eftir dag. Í þessum skrifuðu orðum fer sá stærsti í langan tíma yfir landið. Njótið áfram elskurnar . Knús og kossa frá Borgarnesi 😘😃💨❄️

    Líkar við

Færðu inn athugasemd